Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Novators, hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2007. Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, er um leið heiðruð sem frumkvöðull ársins. Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra afhendir verðlaunin við athöfn á Grillinu á Hótel Sögu nú í hádeginu.

Viðskiptablaðið hefur haft það sem fastan lið um hver áramót, nú í tólfta skipti, að heiðra athafnamenn og frumkvöðla í íslensku viðskiptalífi. Á þann hátt hefur blaðið viljað draga fram með sérstökum hætta margt það mikla og ágæta starf sem unnið er á þeim vettvangi þjóðlífsins.

Óhætt er að segja að árið sem er að líða hafi einkennst af miklum sviptingum á fjármálamörkuðum, bæði hér heima og erlendis, og því er ekki að leyna að það hefur verið ágjöf fyrir íslenska fjárfesta. Á slíkum stundum reynir á framsýni og styrk þeirra viðskiptaáætlana sem unnið er með.

Í umsögn dómnefndar segir að Björgólfur Thor hafi notað undanfarið ár til að selja margar af  þeim fjárfestingum sem hann hefur viðað að sér á síðastliðnum misserum. Síðasta árið hefur Novator þannig selt eignarhluti sína í tékkneska fjarskiptafélaginu CRa, búlgarska símafyrirtækinu BTC og búlgarska bankanum Eibank. Heildarvirði þessara viðskipta er um 3,5 milljarðar evra eða nálægt 315 milljörðum króna. Auk þess er vert að geta velheppnaðrar útgöngu Novators úr breska netuppboðsfyrirtækinu Tradus plc. sem átti sér stað nú í síðustu vikunni fyrir jól. Um leið og Novator seldi af fjárfestingum sínum í Austur-Evrópu réðst félagið í skuldsetta yfirtöku á Actavis, sem er stærsti fjármálagerningur af því tagi sem sést hefur á Íslandi. Sömuleiðis er yfirtakan á Actavis ein af stærstu, skuldsettu yfirtökum Evrópu, þegar horft er til þess að aðeins einn fjárfestir kemur að málum. Í dag situr Novator á digrum sjóðum meðan markaðirnir falla í kringum það. Félagið er í lykilstöðu í mörgum áhugaverðum fyrirtækjum og hefur sýnt að það er ekki síður fært um að selja en kaupa, sem setur það vissulega í öfundsverða aðstöðu í kjölfar þeirra lausafjárerfiðleika sem nú ríkja á mörkuðum. Björgólfur Thor hefur þannig reynst vera framsýnn og farsæll fjárfestir og er vel að Viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins kominn, segir í umsögn dómnefndar.

Dómnefnd Viðskiptablaðsins telur ekki síður ánægjulegt að heiðra frumkvöðla í íslensku viðskiptalífi og fá þannig tækifæri til að vekja athygli á því mikla frumherjastarfi sem unnið er hér á Íslandi. Óhætt er að segja að frumkvöðull ársins komi úr óvæntri átt að þessu sinni. Viðskiptablaðið hefur um nokkurt skeið fylgst með vexti og viðgangi Hjallastefnunnar undir forustu Margrétar Pálu Ólafsdóttur. Vöxtur starfsins þar hefur verið með ólíkindum. Á aðeins 18 mánuðum hefur orðið gríðarleg aukning á skólastarfi undir merkjum Hjallastefnunnar sem rekur nú 13 skólaeiningar með átta stórum leikskólum, og tveimur smábarnaskólum, fyrir börn 18 mánaða og yngri. Þessu til viðbótar hefur Hjallastefnan hafið rekstur þriggja grunnskóla fyrir börn á yngsta skólastiginu, sex, sjö og átta ára. Í öllum þessum skólum eru á milli 11 og 12 hundruð nemendur og starfsmenn eru um 270. Fyrir 18 mánuðum voru skólarnir aðeins þrír. Það er ekki hægt annað en að hrífast af eldmóði og áhuga frumkvöðulsins, Margrétar Pálu, sem hefur nánast upp á eigin spýtur tekið að sér að breyta rekstrarskilyrðum skólastarfs og plægja akurinn fyrir einkarekstur segir í umsögn dómnefndar. Hún er því sannur frumkvöðull að mati Viðskiptablaðsins.