Stærsti hluthafi danska fasteignafélagsins Sjælsø Gruppen, SG Nord Holding, er tæknilega gjaldþrota eftir að hafa tapað um það bil 900 milljónum danskra króna á fjárfestingu sinni á síðasta ári. Þetta kemur fram í Börsen í dag.

SG Nord Holding er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar fjárfestis. Börsen rifjar upp þá erfiðleika sem veldi Björgólfs Thors hefur átt við að glíma síðan bankakerfið hrundi á Íslandi. Meðeigendur hans í félaginu eru dönsku bræðurnir Ib og Torben Rønje.

Að sögn blaðsins skapar þessi staða óvissu um framtíð fasteignafélagsins sem fyrir skömmu færði niður afkomuáætlanir sínar í þriðja sinn á einu ári.

Verð bréfa í Sjælsø Gruppen hefur fallið verulega eða úr 139 krónum á hlut í upphafi árs 2008 í 20,5 krónur í árslok. Breytingin er í takt við þær miklu breytingar sem orðið hafa á dönskum fasteignamarkaði eftir mikla þenslu hans undanfarin ár.