Oft hefur því verið haldið á lofti að einkavæðing bankanna hafi verið mislukkuð að því leytinu til að þeir hafi verið seldir aðilum sem ekki kynnu með banka að fara, svo vitnað sé í margendurtekna orðræðu. Það liggur því að spyrja Björgólf Thor Björgólfsson, sem keypti annan ríkisbankanna ásamt föður sínum í lok árs 2002, hvað honum finnist um þessa umræðu.

Björgólfur Thor segir þó að einkavæðingarferlið hafi breyst mjög mikið frá því að hann kom fyrst að því, það hafi nánast stökkbreyst.

„Allt í einu kom einhver S-hópur að ferlinu, fékk að kaupa VÍS út úr Landsbankanum og keypti annan bankann sem var bara hálfgert grín,“ segir Björgólfur Thor í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

„Þeir komu ekki með neitt erlent fjármagn inn í landið og það var enginn erlendur fjárfestir. Allt í einu voru búnir til einhverjir skuldasúpupeningar til að rétt pólitískt tengdir menn gætu eignast bankann. Þetta var bara algjört bull. Við héldum að við fengjum einhvern tíma til að koma Landsbankanum á ról áður en hinn bankinn yrði seldur. Forskotið sem við hefðum mögulega fengið var tekið af okkur.“

Þá segir Björgólfur að eðlilegast hefði verið að selja Landsbankann og Búnaðarbankann með tveggja ára millibili líkt og gert var með FBA tveimur árum áður. Þannig hefði mögulega fengist hærra verð fyrir Búnaðarbankann og þá hefði ekki hlaupið þessi mikli skyndilegi vöxtur í bankakerfið eins og raun varð á með yfirtöku Kaupþings á Búnaðarbankanum.

- Í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið má finna ítarlegt viðtal við Björgólf Thor þar sem hann fer yfir mörg þeirra mála sem hafa snúið að honum sl. ár. Þar má til dæmis nefna hlut hans í Landsbankanum, samskiptin við stjórnendur Landsbankans, umræðuna um sig sjálfan, fall Straums, mögulegar fjárfestingar á Íslandi í framtíðinni og margt fleira.