Félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar hefur verið að auka hlut sinn í breska síma- og fjarskiptafélaginu Cable & Wireless, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Hluturinn er enn undir 3% og hefur því ekki myndast flöggunarskylda. Cable & Wireless er skráð í kauphöllina í London.

Björgólfur Thor hefur aðallega fjárfest í síma- og fjarskiptafélögum í Mið- og Austur-Evrópu. Í Bretlandi hafa félög í hans eigu fjarfest í breiðbandsfélaginu Be Unlimited og netuppboðsfyrirtækinu QXL Ricardo.

Ekki er víst hvað Björgólfur ætlar sér með eignarhlutinn í Cable & Wireless, hvort að einungis um skammtímafjárfestingu sé að ræða eða hvort hann ætlar sér að gerast kjölfestufjárfestir í félaginu.