Yfir helmingur allra skuldabréfanna í skuldabréfaútboði WOW air voru keypt af aðilum sem tengdust Skúla Mogensen. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun en bók sem fjallar um WOW air og nefnist WOW: Ris og fall flugfélags og er eftir ritstjóra Viðskiptamoggans mun koma út í dag.

Björgólfur Thor Björgólfsson skráði sig fyrir 3 milljónum evra af þeim 50,15 milljónum evra sem alls söfnuðust í skuldabréfaútboðinu. Jafnframt kemur fram að það fé sem safnaðist í útboðinu hafi ekki nema að takmörkuðu leyti skilað sér til félagsins sem nýtt rekstrarfé.

Skúli Mogensen sjálfur keypti skuldabréf fyrir 5,5 milljónir evra í útboðinu líkt og áður hefur verið greint frá. Aðrir sem höfundur bókarinnar segir að hafi tekið þátt í skuldabréfaútboðinu voru Avolon sem tók 5 milljónir evra, ALC skráði sig fyrir 2,5 milljónum evra og Airbus keypti fyrir sömu upphæð. Arion banki, sem var jafnframt viðskiptabanki WOW air, tók 4,3 milljónir evra og félag Margrétar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi eiginkonu Skúla Mogensen, tók 1,5 milljónir evra.

Eaton Vance keypti mest

Bandaríska fjárfestingafélagið Eaton Vance var stærsti einstaki kaupandinn í skuldabréfaútboðinu og keyptu þrír vogunarsjóðir félagsins skuldabréf fyrir 10 milljónir evra og nam heildarfjárfesting Eaton Vance um 20% af heildarumfangi útboðsins.

Aðrir sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu voru innlend fjármálafyrirtæki og erlendir fjárfestar og sjóðir. Tveir sjóðir í stýringu hjá GAMMA keyptu skuldabréf fyrir samtals 2 milljónir evra.