Lánsfjárkreppan lætur engan ósnortinn, og því er gott að vera með sterkt bakland. Hluthafar Actavis, með Björgólf Thor í fararbroddi, hafa ákveðið að styrkja félagið um sem nemur 180 milljónum evra.

Björgólfur Thor Björgólfsson leiðir, í gegnum félag sitt Novator, 180 milljóna evra hlutafjáraukningu Actavis, eða sem nemur rúmlega 25 milljörðum íslenskra króna. Þetta staðfestu forstjóri Actavis, Sigurður Óli Ólafsson, og Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Novators, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Sigurður Óli segir að Björgólfur, sem á 80% í Actavis, líti á félagið sem góðan fjárfestingarkost og það hlutafé sem hann dæli nú inn í félagið staðfesti það; nú séu mikil tækifæri og lítið um fjármögnunarkosti.

„Það sem er að gerast í núverandi ástandi er að lítið er af lánsfjármagni sem við getum leitað til en mikið af tækifærum, sérstaklega þegar svona árar. Við erum að kíkja á nokkur tækifæri til þess að fyrirtækið vaxi enn frekar og raunverulega sýnir þetta að hann er að gefa okkur tækifæri á að fjárfesta á réttum stöðum á þessum tíma. Því það er alveg ljóst að ekki er hægt að fara út í næsta banka og fá lánsfé,“ segir Sigurður Óli.

______________________________________

Nánar er fjallað um fjárinnspýtingu lykilhluthafa Actavis í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .