Heildaruppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar og fjárfestingarfélags hans, Novators, við innlenda og erlenda lánardrottna er nú lokið. Heildarfjárhæð greidd til lánardrottna er um 1.200 milljarðar króna, þar af hafa íslenskir bankar og dótturfélög þeirra nú alls fengið greidda rúma 100 milljarða króna. Allar greiðslur voru í erlendri mynt og voru engar skuldir gefnar eftir. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Björgólfi.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá innihaldi samkomulags Björgólfs þann 22. júlí 2010 og kom þá fram að allar eigur Björgólfs lægju til grundvallar samkomulaginu. Ýmsar persónulegar eignir Björgólfs Thors gengu til lánardrottna strax og gengið var frá samkomulaginu, þar á meðal húseign í Reykjavík og sumarhús við Þingvelli, sem og einkaþota og snekkja.

Allar þessar eignir hafa nú verið seldar og andvirði ráðstafað til kröfuhafa. Í samkomulaginu fólst jafnframt, að Björgólfur Thor myndi áfram verða hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding, en þessar eignir væru til tryggingar á eftirstandandi skuldum. Arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti, kæmi til sölu þeirra, myndi því renna til uppgjörs skuldanna.