Björgólfur Thor Björgólfsson er 29. ríkasti maður Bretlands samkvæmt nýjum lista frá Sunday Times sem birtur var í dag. Eignir hans eru metnar á rúmlega 2 milljarða punda. Björgólfur var í 23. sæti listans í fyrra.

Enginn Íslendingur er á listanum yfir þá 100 ríkustu í Evrópu. Bræðurnir Mukesh og Anil Ambani eru taldir hinir ríkustu, en eignir þeirra eru taldar nema um 43 milljörðum punda. Í öðru sæti listans er Walton fjölskyldan sem á meðal annars Wal-Mart. Auður fjölskyldunnar er metinn á 38,4 milljarða punda.

Bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett er í þriðja sæti listans með eignir metnar á 31 milljarð punda.

Ríkasti maður Bretlands er stálframleiðandinn Lakshmi Mittal en eignir hans eru metanr á 27,7 milljarða punda. Roman Abramovich er í öðru sæti yfir ríkustu íbúa Bretlands, en einungis sex af 20 ríkustu Bretunum eru fæddir í Bretlandi, að því er kemur fram í umfjöllun Sunday Times.