Björgólfur Thor Björgólfsson og Friðrik Jóhannsson hafa boðað til blaðamannafundar í húsakynnum Straums-Burðaráss, núna klukkan 11.

Friðrik Jóhannsson var ráðinn forstjóri Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. á fundi stjórnar félagsins í gær. Á fundinum var tekin ákvörðun um starfslok Þórðar Más Jóhannessonar og hefur hann þegar látið af störfum.

Hann gegndi starfi forstjóra félagsins frá sameiningu Burðaráss og Straums fyrir 10 mánuðum eða í ágústmánuði á síðasta ári.

Áður var hann forstjóri Straums Fjárfestingabanka (áður Fjárfestingafélags) frá árinu 2001. Friðrik Jóhannsson er löggiltur endurskoðandi, formaður stjórnar Kauphallar Íslands og var áður forstjóri Burðaráss.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að stjórn Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hefur samþykkt að boða til hlutahafafundar í félaginu þann 19. júlí næstkomandi kl. 14.00. Á dagskrá fundarins verður tillaga um að núverandi stjórn verði leyst frá störfum og ný stjórn kjörin.

Meirihluti stjórnar (3/2) samþykkti jafnframt að ganga frá starfslokum forstjóra bankans, Þórðar Más Jóhannessonar frá og með deginum í dag (21.6.06) og ráða Friðrik Jóhannsson sem forstjóra félagsins frá sama tíma.