Björgólfur Thor Björgólfsson er sagður telja sig geta keypt allt, að mati skýrsluhöfunda rannsóknarfyrirtækisins Kroll. Skýrslan var unnan fyrir bandaríska lyfjafyrirtækið Barr árið 2006 þegar það keppti við Actavis um kaup á króatíska lyfjafyrirtækinu Pliva.

DV fjallar um málið í dag og segir að í skýrslunni sé fjallað um viðskiptasögu Björgólfs og fjölskyldu hans. M.a. er komið inn á Hafskipsmálið, bjórframleiðslunni í Rússlandi, kaupum þeirra feðga á kjölfestuhlut í Landsbankanum og öðrum viðskiptum í Austur-Evrópu.

DV segir dökka mynd dregna upp af Björgólfi. Þar á meðal eigi hann átt að hafa greitt dyraverði á næturklúbbi í Suður-Evrópu nokkuð þúsund evrur til að komast inn á hann með vinum sínum.

Skýrslunni var að sögn DV beitt í kapphlaupi Actavis um Pliva. Barr hafði betur í þeirri baráttu.

Kroll fann eignir Saddams Hussein

Kroll er sjálfstætt fyrirtæki sem starfar á heimsvísu. Það hefur m.a. unnð að því að finna eignir sem einræðisherrar ríkja komu undan til persónulegra nota í valdatíð sinni og fann m.a. eignir Imeldu og Ferdinand Marcos á Filippseyjum og Saddams Hussein sem þau höfðu stungið undan.

Fjallað var um skýrslu Kroll í desember í fyrra í fjölmiðlum hér, m.a. í Kastljósinu og í Viðskiptablaðinu. Björgólfur sagði um skýrsluna á sínum tíma byggjast á dylgjum. Barr hafi leitað allra leiða til að fá fjárfestingarsjóði til liðs við sig fremur en Actavis og hafi liður í því verið samantekt á orðrómi og dylgjum sem slúðrað hafi verið um.