Novator Telecom Bulgaria, fjárfestingafélag í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar, hefur samþykkt að kaupa hlut fjárfestingasjóðsins Advent International, í eignarhaldsfélaginu Viva Ventures.

Viva Ventures á 65% hlut í búlgarska símafélaginu Bulgarian Telecom (BTC) en Advent er stærsti hluthafinn í félaginu, sem var stofnað til að kaupa hlutinn í BTC fyrir 230 milljónir evra (17,14 milljarðar íslenskra króna) þegar félagið var einkavætt í fyrra.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en talið er að heildarverðmæti BTC sé um 150 milljarðar króna, og hefur félagið hækkað mjög í verði síðan það var einkavætt. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er virði viðskiptanna um 100 milljarðar, en einnig er verið að endurfjármagna Viva Ventures.

?Ég hef mikla trú á BTC og búlgarska símamarkaðnum. Ég er vissum um að hlutverk BTC og Vivatel (farsímarmur félagsins) verði mikilvægt þegar kemur að samkeppni og þróun símafyrirtækja í Búlgaríu og víðar," segir Björgólfur Thor.