Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers greindi í gær frá kaupum á tékkneska fjarskiptafélaginu Ceske Radiokomunikace (CRa) og samkvæmt heimildum Reuters-fréttasofunnar er kaupverðið um 1,2 milljarðar evra, sem samsvarar 110 milljörðum króna. Félög tengd eða í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar eiga 70% hlut í tékkneska fyrirtækinu.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að kaupverðið sé nokkuð hærra en 110 milljarðar og að hlutur Björgólfs Thors hafi verið seldur á um 120 milljarða, en upphaflegt kaupverð var 40 milljarðar króna og nemur söluhagnaðurinn því 80 milljörðum króna. Straumur-Burðarás og Landsbanki Íslands fjárfestu einnig í CRa. 39,2% hlutur í félagsins í T-Mobile Czech Republic fylgir einnig með í kaupunum, en Deutsche Telekom fer enn með ráðandi hlut í farsímafyrirtækinu.

Lehman Brothers leiðir hóp fjárfesta til að taka yfir CRa, en hópurinn inniheldur einnig fjárfestingasjóðinn Mid Europa og eignarhaldsfélagið Al Bateen, sem staðsett er í Abu Dhabi. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins á sambankalánamarkaði í London segja að kaupin séu fjármögnuð með lánum og að lánapakkinn sé sá stærsti sem hefur verið sölutryggður til skuldsettra kaupa í Mið-Evrópu, en heildarvirði skuldanna er um 750 milljónir evra.

Eiganarhaldsfélagið Bivideon, sem skráð er í Hollandi, hélt utan um eignarhlut íslensku fjárfestanna í CRa. Fagtímaritið Telecom Finance greindi frá því í október að mögulegt væri að selja Bivideon og síðan hafa getgátur verið um kaup á eignum félagsins. Tímaritið sagði þá að mögulegt væri að skipta upp eignum félagins, og benti á að verðmætasta eignin væri hluturinn í T-Mobile. Hins vegar hefur fjárfestahópur Lehman Brothers samþykkt að kaupa allar eignir félagsins.