Fyrir utan það þegar pólska ríkið seldi ríkisfyrirtæki landsins verður útboð fjarskipafélags Play, sem er að hluta í eigu Novator, í næstu viku það stærsta í sögu Póllands. Novator, fjárfestingarfélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, og gríska fjárfestingarfélagið Tollerton, hyggjast selja 48,6% hlutafjár í félaginu í útboði í kauphöllinni í Varsjá í Póllandi.

Gengið í útboðinu verða 36 pólsk slot á hvern hlut, og því söluandvirðið 4,4 milljarðar slota, sem jafngildir 124 milljörðum íslenskra króna að því er Vísir greinir frá. Mun Novator þannig losa 24,2% hlut í Play, sem metinn er á 60,8 milljarða króna ef miðað er við þetta gengi, en félagið á tæplega helming hlutafjár í pólska fjarskiptafélaginu, sem er það næst stærsta á pólska markaðnum.

Play hefur vaxið hratt á pólska markaðnum, er það með yfir 14 milljón viðskiptavina, en árið 2008 hafði það um 5% markaðshlutdeild, en nú er hún um 27%. Mun Novator eiga 25,5% hlut eftir útboðið, sem er að andvirði tæplega 67 milljarða króna, en félagið hefur jafnframt skuldbundið sig til að selja ekki fleiri hluta í félaginu í 180 daga eftir útboðið.