Björgólfur Thor Björgólfsson hefur í samstarfi við David de Rothschild, og mexíkóskan sérfræðing, hafið framleiðslu og sölu á áfenga drykknum mezcal. Ein tegund fyrirtækis þeirra verður til sölu í ÁTVR en aðrar á íslenskum veitingahúsum innan tíðar, og kostar flaskan frá um 14 þúsund krónum upp í ríflega tvöfalt meira.

Til að byrja með verður spírinn settur á markað í Bretlandi, Bandaríkjunum, Mexíkó sem og á Íslandi. Drykkurinn er handunninn úr agaveplöntum sem ræktaðar eru í um áratug í sólríkum dölum í Oaxaca héraði í suðausturhluta Mexíkó áður en þær eru tíndar.

David er af hinni frægu fjármálafjölskyldu, sem er nefnd eftir Rothschild-húsinu frá árinu 1567 í Frankfurt í Þýskalandi, en þeir félagar kynntust árið 2006 á Íslandi. Verkefnið er ástríðuverkefni þeirra Björgólfs Thor og David en það hófst á síðasta ári og er mexíkóski mezcal-sérfræðingurinn Don Fortimo Ramos meðeigandi þeirra í því.

Það var David sem kom Björgólfi á bragðið með mezcal sem margir þekkja af hinum sérstæða ormi sem oft er settur í flöskurnar. David de Rotschild lýsir mezcal sem fullorðna systkini tequila, en samt líkara viskíi í bragði og áferð.

Mezcal framleiðsla þeirra félaga er undir vörumerki Davids de Rotschild, The Lost Explorer, eða Týndi landkönnuðurinn, en undir því hefur hann markaðssett fjölmargar vörur sem eiga að vera sem umhverfisvænastar og byggja á endurnýtingu.

Björgólfur deilir náttúruverndaráhuganum með honum en David hefur staðið að kvikmyndagerð um efnið og ferðast um allan heim, en hann hitti einmitt Björgólf Thor fyrst hér á landi eftir ferð á norðurskautið.

Einungis verður hægt að panta eina tegund hér á landi í almennri sölu í sérpöntunum hjá ÁTVR, það er tegundina Espadin sem er verðlögð á um 13.700 krónur. Hún er framleidd úr agaveplöntum sem vaxa í þurrum og heitum dölum í átta ár áður en þær eru skornar.

Hinar tvær tegundirnar verða svo til sölu á veitingastöðum. Önnur þeirra er Tobala sem er verðlögð á um 21.500 krónur flaskan en hún er unnin úr plöntum sem vaxa í tíu ár í skraufþurrum skuggsælum dölum hátt yfir sjávarmáli.

Salmiana, dýrasta tegundin, er svo seld á um 26 þúsund krónur flaskan, enda framleidd í miklu minna magni en hinar tegundirnar úr plöntum sem hafa vaxið í 12 ár í mikilli hæð á hrjóstugu landsvæði.

Kynntust á jökli eftir Norðurpólsferð

Björgólfur Thor kynntist David de Rothschild fyrst árið 2006 þegar hann bauð til sín hópi ungra leiðtoga. „Ég og David hittumst fyrst á Íslandi á snæviþöktum jökli. Þá var David nýsnúinn aftur frá ferð á Norðurpólinn og við vorum heppnir að eyða nokkrum dögum saman,“ segir Björgólfur Thor.

Rotschild segist fljótlega hafa áttað sig á að þeir Björgólfur ættu mörg sameiginleg áhugamál. „Í hvert sinn sem við vorum í sama rými þá drógumst við að hvor öðrum,“ segir Rothschild.

Björgólfur segist fyrst hafa smakkað drykkinn í heimsókn hjá David í Los Angeles þegar hann var á leiðinni á Burning Man-hátíðina árið 2015. „Til að vera alveg heiðarlegur var ég ekki yfir mig hrifinn strax,“ segir Björgólfur sem segir bragðið sterkt og sérstakt en vakið áhuga sem hafi vaxið.

„Eitt af því sem okkur hefur tekist að gera með mezcal Týndu landkönnuðanna er að búa til spíra sem brennur síður og er eins mjúkur og mögulegt er. Það er miklu aðgengilegra.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Gert er grein fyrir framþróun vaxtamunar viðskiptabankanna þriggja.
  • Rætt er við stofnanda DecideAct sem var í vikunni skráð í dönsku kauphöllina.
  • Eru tæknifyrirtæki ofmetin? Teikn eru á lofti um tæknibólu á bandarískum hlutabréfamarkaði.
  • Rætt er við Sigurgeir Jónsson hjá bandaríska lánafyrirtækinu Better Mortgage, sem hefur vaxið ört frá stofnun.
  • Fjallað um boðaðar breytingar á verðlagningu og greiðsluþátttöku í lyfjageiranum en hagsmunaaðilar telja þær ógna lyfjaöryggi.
  • Samfélagshraðall Snjallræðis er byrjaður að taka við umsóknum um þátttakendur á nýju ári.
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra markaðssviðs Wise, Ingu Birnu Ragnarsdóttur, um starfsferilinn, yoga- og spilaáhuganum.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um stjórnmálamenn sem berjast gegn atvinnuörygginu.
  • Fjölmiðlarýnir fer um víðan völl frá almannavörnum til Veitna.