Bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors hefur náð samningum við Novator um kaup á öllu hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Samningar eru háðir hefðbundnum fyrirvörum, en bæði kaupandi og seljandi eru bjartsýnir á að eigendaskipti gangi að fullu í gegn á næstu mánuðum. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að: „Pt Capital Advisors er dótturfélag Pt Capital. Fyrirtækið, sem er með aðsetur í Anchorage, Alaska, leggur megin áherslu á fjárfestingar á norðurslóðum.

Félög innan Pt samstæðunnar sameina viðskiptasambönd sín og sérþekkingu í fjármálum til að fjárfesta í tækifærum í Alaska, norðanverðu Kanada, Grænlandi og Íslandi. Nova er fyrsta fjárfesting Pt Capital Advisors hér á landi.

Novator er fjárfestingafélag undir stjórn Björgólfs Thors Björgólfssonar. Novator stofnaði Nova árið 2006, en fyrirtækið tók til starfa í desember 2007.

Á þeim tæpu 9 árum sem liðin eru hefur Nova náð mestri markaðshlutdeild fyrirtækja á íslenskum farsímamarkaði. Nova var fjármagnað frá grunni með eigin fé og hefur allan tímann verið að fullu í eigu Novators og stjórnenda Nova. Novator á tvö önnur fjarskiptafyrirtæki, Play í Póllandi og WOM í Chile, með 17 milljón viðskiptavini samtals.“

Kvika banki leiddi söluferlið af hálfu seljenda. Íslensk verðbréf hf. veitti PT Capital Advisors ráðgjöf í tengslum við kaupin.