Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Pt Arctic Fund hefur keypt helmingshlut Novator, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, í Platínum Nova, móðurfélagi fjarskiptafélagsins Nova. Þar með lýkur fimmtán ára sögu Björgólfs Thors og Nova. „Í kjölfar samrunans munu fjarskiptafélagið Nova hf. og hótelrekandinn Keahótel ehf. verða undir sömu yfirráðum,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem hefur heimilað kaupin. Ekki er greint frá kaupverðinu.

Pt Arctic Fund, sjóður í stýringu Pt Capital Advisors, átti fyrir kaupin 44,49% hlut í Nova í gegnum eignarhaldsfélagið Nova Acquisition Holding ehf. Bandaríski sjóðurinn fer nú með 94,49% hlut. Nova Acquisition (Iceland), LLC fer áfram með 5,51% hlut.

Í samrunaskjali eftirlitsins segir að PT Capital Advisors hafi óbein yfirráð yfir 50% hlutafjár Prime Hotels í gegnum félagið Kea-PT, LLC. Prime Hotels á 65% af heildarhlutafé hótelkeðjunnar Keahótel ehf.

Novator stofnaði Nova árið 2006 og farsímafélagið opnaði þjónustu sína formlega í desember 2007. Novator seldi nærri helmingshlut í Nova til PT Captial Advisors árið 2017.

Nova hagnaðist um 1.070 milljónir króna á síðasta ári . Tekjur fjarskiptafélagsins jukust úr 10,3 milljörðum í 11,3 milljarða milli áranna 2019 og 2020. Meðalfjöldi starfsmanna Nova á síðasta ári var 150 talsins. Eignir Nova námu 8,2 milljörðum króna og eigið fé var um 4,8 milljarðar í lok síðasta árs.

„Nova er með sterka markaðsstöðu ásamt ánægðustu viðskiptavinina,“ segir Hugh Short , forstjóri Pt Capital og stjórnarformaður Nova, í fréttatilkynningu. „Stjórnendateymi Nova hefur skilað vexti í gegnum faraldurinn og lagt grunninn fyrir vaxtaplan næstu ára sem mun setja í stein forskot félagsins hvað varðar bestu tæknina og mestu nýjungar í vöruþróun. Það sem skiptir mestu máli er að Nova leggur áfram höfuðáherslu á ánægju viðskiptavina sinna.“

Sigþór Sigmarsson, stjórnarmaður Novator og Nova, segir að fjárfestingarfélagið stígi nú frá Nova eftir fjögur ár af velheppnuðu samstarfi við Pt Capital.

„Nova hefur aldrei verið jafnsterkt og við erum sannfærð um að félagið muni halda áfram að vaxa og dafna undir stjórn Pt Capital og Nova stjórnendateyminu,“ er haft eftir Sigþóri.

Fréttin var uppfærð eftir að Pt Capital sendi frá sér fréttatilkynningu.