Björgólfur Thor Björgólfsson segist vera bjartsýnismaður að eðlisfari, en engu að síður sjái hann óveðurský á sjóndeildarhringnum. Spáir hann annarri alþjóðakreppu á næstu 12-24 mánuðum.

„Ástæðurnar eru í raun ekki flóknar. Í fyrsta lagi sveiflast markaðir á u.þ.b. sex til átta ára fresti og nú eru sex ár frá hruni og hlutabréfamarkaðir hafa verið að hækka í fimm ár. Þetta getur ekki haldið áfram að eilífu. Þá hef ég áhyggjur af stöðunni í Evrópu, en þar hefur seðlabankinn verið allt of tregur við að styðja við markaði með sama hætti og bandaríski seðlabankinn gerði. Í Bandaríkjunum er uppgangur hafinn á ný, en ég held að evrópski seðlabankinn sé að grípa of seint inn í með sínum aðgerðum nú.

Þá er skuldsetning í heiminum allt of mikil. Ég ímynda mér að margir haldi að skuldsetning á heimsvísu hafi minnkað eftir hrun, en sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa skuldir á heimsvísu hækkað gríðarlega eftir hrun og hafa aldrei verið hærri. Þetta er eitthvað sem getur ekki haldið áfram endalaust og einhvern tímann kemur að skuldadögum. Ég hef áhyggjur af því að það gerist fyrr en seinna.“

Ítarlegt viðtal við Björgólf Thor er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .