„Novator er langstærsta fjárfestingafélag mitt og eignarhlutur minn í Actavis tilheyrir Novator. Novator hefur aldrei fjárfest í íslenska fjármálageiranum og hefur staðan þar ekki áhrif  á félagið.“

Þetta kemur fram í skilaboðum sem Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi Novator, sendi starfsmönnum Actavis í vikunni sem Viðskiptablaðið hefur fengið í sínar hendur. Actavis er í eigu Novator.

Þar segist Björgólfur Thor hafa fulla trú á Actavis, stjórnendum þess og starfsmönnum.

„Samheitalyfjaiðnaðurinn er grein í miklum vexti og mörg tækifæri í sjónmáli,“ segir Björgólfur Thor í skilaboðum til starfsmanna og bætir því við að fyrirtækið hafi alla burði til að vera í forystu samkeppni á þeim markaði.

Eins og kunnugt er hefur annað félag í eigu Björgólfs, Samson eignarhaldsfélag óskað eftir greiðslustöðvun eftir að Fjármálaráðuneytið yfirtók Landsbankann í vikunni. Samson var stærsti einstaki hluthafinn í Landsbankanum.