Tékkneska fjarskiptafyrirtækið Ceske Radiokommunikace (CRa), sem er að stórum hluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur skilað inn óbindandi tilboði í 75% hlut í ungverska margmiðlunarfyrirtækinu Antenna Hungaria. Andri Sveinsson stjórnarmeðlimur CRa staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Íslenskir fjárfestar undir forystu Björgólfs Thor Björgólfssonar eiga meirihluta hlutafjár í CRa í gegnum eignarhaldsfélagið Bivideon B.V., sem skráð er í Hollandi.

Ungversk stjórnvöld hafa falið einkavæðinganefnd landsins, APV, að selja 75% hlut í Antenna. Hlutur ríkisins er metinn á 12,7 milljarða króna.

Aðspurður hvort Landbankinn, sem undanfarið hefur lagt mikla áherslu á sambankalán, kæmi að fjármögnun á tilboðinu svaraði Andri neitandi. Hann sagði að ekki hafi verið ákveðið hverjir komi að því að fjármagna kaupin ef af verður, en viðræður séu hafnar við erlenda banka.

Sjá nánar í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.