Getgátur eru um að athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson, eða félög tengd honum, ætli að fjármagna hugsanlegt kauptilboð Eggerts Magnússonar, formanns Knattspyrnusambands Íslands í breska knattspyrnuklúbbinn West Ham.

Talsmaður Björgólfs Thors sagðist ekki vita hver væri á bak við tilboð Eggerts í félagið, en heimildarmenn Viðskiptablaðsins efast um að Eggert hafi fjárhagslegt bolmagn til að kaupa West Ham.

Eggert fullyrti í samtali við íslenska fjölmiðla í dag að hann væri einn að skoða hugsanleg kaup á West Ham, en tók fram að málið væri á byrjunarreit.

Eggert staðfesti við breska fjölmiðla í dag að hann ætti í viðræðum um að kaupa breska knattspyrnufélagið, en samkvæmt upplýsingum The Times og The Daily Telegraph er hugsanlegt kaupverð í kringum 75 milljónir punda, sem samsvarar 9,5 milljörðum króna.