Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið valinn ásamt 237 stjórnendum til að taka þátt í átaki til að móta betri framtíð sem mun vinna náið með The World Economic Forum. Átakið felst í ráðstefnu einu sinni á ári meðal ungra leiðtoga en þeir hafa áskilið að nýta hluta af þekkingu og atorku sinni næstu fimm árin til að vinna skapa betri framtíð.

Björgólfur var valinn úr hópi 8.000 umsækjenda og segir hann það heiður fyrir sig að taka þátt í "Forum of Young Global Leaders".

Af þeim 237 sem voru valdir eru 57 stjórnmálaleiðtogar, þar á meðal þjóðhöfðingjar, ráðherrar og þingmenn. Úr viðskiptalífinu eru 97, fræðimenn eru 28, stjórnmálaskýrendur 23, fulltrúar úr félagslífi eru 27 og 5 starfa í menningarmálum. Þriðjungur ráðstefnumanna er konur.

Meðal þátttakenda eru Hákon, krónprins í Noregi, Viktoría krónprinsessa í Svíþjóð og Stelios Haji-Ioannou, eigandi easyGroup og m.a. eigandi af 40% hlut í easyJet.

Ungu leiðtogarnir munu taka þátt í verkefninu 2020 og munu þátttakendurnir hittast fyrst á ráðstefnu í Swiss í sumar þar sem þeir munu meta þróunina núna og í framtíðinni, áhættu og tækifæri bæði heima fyrir og á alþjóðavísu. Þá munu þeir ákveða hvað gera skuli til að gera árið 2020 betra.