„Ég var ekki að þrýsta á stjórnendur bankans að gera eitt eða neitt,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson, annar af tveimur fyrrverandi kjölfestufjárfestum og helstu eigendum gamla Landsbankans. Hann var á meðal þeirra sem báru vitni í gær í aðalmeðferð í máli embættis sérstaks sóknara gegn þremur fyrrverandi lykilstjórnendum bankans sem fram fer í héraðsdómi Reykjavíkur.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag. Mál sérstaks saksóknara snýst um veitingu níu milljarða króna láns sem tvö félög fengu hjá bankanum rétt áður en hann fór í þrot. Annað félaganna var Azalea Rescources, félag í eigu finnska fjárfestisins Ari Salmiviouri. Hann er jafnframt viðskiptafélagi Björgólfs. Félagið fékk lánaða 3,8 milljarða króna. Hitt er félagið Imon, sem fékk um 5 milljarða til kaupa á hlutabréfum Landsbankans. Viðskiptin munu ekki hafa gengið í gegn þar sem bankinn féll áður en af þeim varð. Ákærð eru Sigurjón Þ. Árnason, sem var annar bankastjóra Landsbankans, Elín Sigfúsdóttir, sem var yfir fyrirtækjasviðinu og var bankastjóri um tíma, og Steinþór Gunnarsson, sem var yfir verðbréfamiðlun bankans.

Í Morgunblaðinu er haft eftir Björgólfi að þótt hann þekki Salmivoiouri þá gildi það sama og um hana og lánveitinguna til félagsins Imon, hann hafi engin afskipti haft af viðskiptunum og ekki hvatt til þeirra.

Við aðalmeðferðina sagði Björgólfur að hann hefði trúað því að gamli Landsbankinn myndi hafa það af. Hann hafi tekið þátt í því að reyna að bjarga bankanum, m.a. með því að leggja fram frekari tryggingar af sinni hálfu.