Eitt af því sem vekur athygli við skuldauppgjör Björgólfs Thors Björgólfssonar, er að hann mun hætta sem stjórnarformaður Actavis, eftir að hafa verið þar stjórnarformaður sl. 10 ár.

Aðspurður um stöðu sína innan Actavis segir Björgólfur Thor að hann verði áfram leiðandi fjárfestir og sitji í stjórn félagsins. Hann hafi hins vegar leitað til Claudio Albrecht [sem ráðinn var forstjóri Actavis í júní sl. innsk.blaðamanns] um að verða starfandi stjórnarformaður.

„Takmarkið er að koma félaginu í verð og selja það,“ segir Björgólfur Thor í samtali við Viðskiptablaðið.

„Nú er ég í betri aðstöðu til að einbeita mér að því og öðrum verkefnum. Ég er oft með fulltrúa mína og samstarfsmenn í stjórn en ég kýs frekar að vera fjárfestir. Þannig verður maður líka minna tilfinningalega tengdur eignunum og getur lagt kalt mat á sölu þeirra.“

Í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið má finna ítarlegt viðtal við Björgólf Thor þar sem hann fer yfir mörg þeirra mála sem hafa snúið að honum sl. ár. Þar má til dæmis nefna hlut hans í Landsbankanum, samskiptin við stjórnendur Landsbankans, umræðuna um sig sjálfan, fall Straums, mögulegar fjárfestingar á Íslandi í framtíðinni og margt fleira.