Novator, fyrirtæki í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar er að fjármagna fyrirhugaða yfirtöku á evrópska uppboðsvefnum QXL Ricardo. Félag sem er að 66% hlut í eigu Novator hefur gert yfirtökutilboð í fyrirtækið. Ekki er þó víst að yfirtökutilboðinu verði tekið því að stjórnendur félagsins mæla ekki með tilboðinu og segja það vanmeta fyrirtækið en áður höfðu stjórnendur félagsins mælt með tilboði annars aðila sem hljóðaði upp á 700 pens á hlut en Florrisant sem er að stærstum hluta í eigu Novator hljóðar upp á 800 pens á hlut. Gengi félagsins var í gær um 865 pens á hlut eins og kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.

QXL Ricardo er uppboðsvefur sem sagður er hafa sterka stöðu í þeim löndum sem hann starfar á og er stefna félagsins núna að sækja harðar á þá markaði. QXL Ricardo var fyrirtæki sem blés út ásamt öðrum netbólufyrirtækjum og sprakk hvað harðast en þegar best lét var fyrirtækið metið á yfir 200 milljarða króna en nú hljóðar kauptilboð Florissant upp á 1,6 milljarð króna. Líkt og önnur bólufyrirtæki hefur QXL Ricardo aldrei skilað hagnaði en búist er við miklum vexti á næstu árum. Hægt er að segja að fyrirtækið sé evrópska útgáfan af eBay sem hefur gengið ótrúlega vel að undanförnu og hefur QXL tekið eftir sömu þróun en salan hefur verið að aukast.

Félagið er með starfsemi í Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, Noregi, Danmörku, Póllandi, Svíþjóð og Swiss. Það var stofnað árið 1997 af fyrrverandi blaðamanninum Tim Jackson.

Síðustu rekstrarniðurstöður benda til þess að fyrirtækið sé að rétta úr kútnum en á öðrum ársfjórðungi sem endaði 30. september jókst veltan milli ára um 67% og var 1,51 milljón punda sem jafngildir hátt í 200 milljónum íslenska króna. Rekstrargjöld drógust saman um 58% og voru 1,61 milljón punda eða um 200 milljónum íslenska króna. Rekstrartap minnkaði um 95% milli ára og var 136 þúsund pund samanborið við hátt í þrjár milljónir punda fyrir annan ársfjórðung árið 2003.

Novator á 66% í Florissant, KRC 23% en það er að fullu í eigu Kenn Robson og 11% verða í eigu Andrin Bachmann. Í stjórn Florissant eru Kenn Robson, Kristján Valdimarsson og Tómas Hansson.

Íslandsbanki veitir ráðgjöf við yfirtökuna.