Það var ekki sjálfgefið að Novator og Björgólfur Thor Björgólfsson sætu eftir með þá 5 milljónir hluta sem félagið gerir nú eftir að hlutur Novators í Actavis var seldur til Watson í vor. Eins og fram kemur í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins hélt Novator eftir fimm milljónum hluta og hefur félagið og Björgólfur Thor hagnast verulega á því.

Samhliða söluviðræðum Novator og Watson var einnig gerður samningur á milli Novator og Deutsche Bank sem fól það í sér að Novator tæki þau bréf sem bankinn átti rétt á að fá í skiptum fyrir reiðufé sem Novator átti rétt á við söluna. Þetta veðmál sem samningurinn fól í sér hefur heldur betur borgað sig enda hefur hlutabréfaverð Actavis tvöfaldast á undanförnu ári. Hlutir Novator eru nú virði um 92 milljarða króna en var um 60 milljarða virði þegar hlutirnir voru afhentir í vor.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í vor sagði Björgólfur að hann væri mjög sáttur við hvernig ræst hefði úr sölunni. „Ég skoðaði málið og var annars vegar með mjög áhættufælna banka öðrum megin og svo var ég hinum megin. Ég sagði að ég myndi taka áhættuna, ég trúi því að þessi, tvö fyrirtæki séu sterkari saman en hvort í sínu lagi,“ sagði Björgólfur þá um hvernig þetta hefði gengið fyrir sig.