Björgólfur Thor Björgólfsson tók þátt í 25 milljón dollara fjárfestingu eða sem samsvarar um það bil 2,86 milljörðum íslenskra króna í fyrirtækinu Atai Life Sciences AG sem rannsakar hvort nota megi efni úr ofskynjunarsveppum til að meðhöndla þunglyndi. Fyrirtækið íhugar að ráðast í hlutafjárútboð á næsta ári. Þetta kemur fram í frétt á vef Bloomberg .

Atai Life Science AG tilkynnir bráðlega fjármögnun sem leidd verður af Björgólfi Thor ásamt þýska fjárfestinum Christian Angermayer og milljarðamæringnum Mike Novogratz.

Atai á töluverðan hlut í breska sprotafyrirtækinu Compass Pathways, sem vinnur að klínískum rannsóknum á efninu psilocybin, en það finnst í ofskynskynjunarsveppum.

Atai er jafnframt stærsti hluthafinn í fyrirtækinu Innoplexus AG, en það vinnur að rannsóknum á því hvernig unnt er að nýta gervigreind til að finna meðhöndlun á sjúkdómum. Rannsóknir hafa nú þegar sýnt fram á að efnið geti dregið úr þunglyndiseinkennum.

Atai hefur hafið viðræður við banka um mögulega skráningu á markað í Kanada á næsta ári og horft er til þess að fyrirtækið sé metið á að minnsta kosti 800 milljónir dollara.