Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, telur að upplýsingar sem komu fram í bréfi Birkis Hólms Guðnasonar, framkvæmdastjóra Icelandair, hafi ekki þurft að birta opinberlega. Í bréfi til starfsmanna í gær lýsir Birkir áhyggjum yfir hækkandi olíuverði. Björgólfur segir þó ummælin óheppileg. „Ég met það þannig, eftir mikla yfirferð á þessu í morgun, að við höfum ekki brotið neinar reglur hvað varðar tilkynningu og að þetta hafi ekki verið afkomuviðvörun.“

Björgólfur segir að í bréfinu sé vísað í afkomuspá félagsins frá 14. febrúar, en ekki olíuhækkanir síðustu vikna. Bréfið sé þó óheppilega orðað. Hann segir að forstjóri sé sá eini sem eigi að tjá sig um afkomu félagsins út á við.

Í kynningu fyrir fjárfesta frá 14. febrúar er gert ráð fyrir að EBITDA-hagnaður í ár verði um 3 milljörðum lægri en í fyrra. Björgólfur segir, líkt og kom fram í tilkynningu frá Icelandair í morgun, að afkomuspá hafi ekki verið breytt. Hann bendir á að aðrir þættir séu kvikir, til dæmis launakostnaður. Afkomuspá sé óbreytt en geti vissulega breyst til hækkunar eða lækkunar líkt og gengur.