Novator F11 ehf., félag Björgólfs Thors Björgólfssonar sem á fasteignina við Fríkirkjuveg 11, hefur sótt um leyfi til að innrétta veitinga- og ráðstefnusal fyrir 160 gesti í húsinu. Þetta kemur fram í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. ágúst sl.

Fyrr í sumar hófust endurbætur á fasteigninni og er nú unnið í því að gera húsið upp að utan og innan. Þá kom fram í tilkynningu frá Björgólfi að markmiðið með endurbótunum væri að hlúa að þeim menningarverðmætum sem fælust í byggingunni og opna húsið svo almenningi, sem ekki hefur átt þar greiðan aðgang í áratugi.

Í umsókn Björgólfs Thors til umhverfis- og skipulagsráðs segir að sótt verði um tækifærisleyfi fyrir hvern viðburð í kjallara og á 1. hæð hússins. Gólfplata verði lækkuð í hliðarsal, salernum komið fyrir, matarlyftu við eldhús og fólkslyftu frá kjallara upp á 1. hæð ásamt fleiri breytingum.

Ákvörðun ráðsins var frestað og verður málið tekið aftur fyrir síðar.