Að sögn Björgólfs Thors Björgólfssonar fjárfestis gefur aðkoma hans að tölvuleikafyrirtækinu CCP ýmsa möguleika fyrir fjarskiptarekstur hans.

"CCP er afburðagott fyrirtæki sem stendur framarlega í sínum geira og það að það skuli vera íslenskt er bara tilviljun. Yfir 99% af tekjum þess koma erlendis frá og félagið byggir á hugviti og það er auðvelt að flytja það á milli landa. Ég er að skoða þetta út frá þeim tengingum að hafa efni inni í þeim fjarskiptafyrirtækjum sem ég hef verið með. Ég er að skoða þetta sem einn anga af því. Þetta er fyrirtæki sem byggist á því að skapa mikla notkun á netinu og símaþjónustu. Það eru hlutir sem ég vill kynna mér betur."

- Nú ert þú orðin umsvifamikill í símarekstri víða -- sérð þú fyrir þér að þú verðir líka að koma að efnisveitunni?

"Það er umræða sem er uppi alltaf og ég þarf bara að fara að móta mér skoðun á því og þetta er einn liður í því að kynna sér efnin. Þetta er engin risafjárfesting en þetta er gott til þess að læra á því."

- Ætlar þú að gera eitthvað sérstakt með þetta félag?

"Það er í góðum málum og ég ætla að kynna mér það betur og taka ákvörðun upp úr því."

Brú Venture Capital hf. seldi í síðustu viku um 38% hlut sinn í CCP hf. til NP ehf. sem er í eigu Novator ehf. en það er íslensk starfsstöð alþjóðlega fjárfestingarfélagsins Novator sem er í eigu Björgólfs Thors.