Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Íslandsstofu á Fjármálaþingi Íslandsbanka, og fyrrverandi forstjóri Icelandair, segir að Íslendingar eigi að vera óhræddir við að vera dýrari en önnur lönd. Þetta sagði Björgólfur á Fjármálaþingi Íslandsbanka sem haldið var í dag með vísun í að ekki væri vilji fyrir því að hafa einhvern sólarstrandamassa af ferðamönnum á landinu.

Á þinginu var rætt um miklar sviptingar í viðskiptalífi heimsins auk þess sem ný þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka var kynnt, en auk Björgólfs sátu þau Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar og Heiðar Guðjónsson hagfræðingur í pallborði fundarins.

Ferðamannafjöldinn „eins og síldarævintýri“

„Ferðamannafjöldinn hefur verið eins og vertíð, eins og síldarævintýri. Við vorum að horfa á vöxt upp á 30-40% og svo fer allt á annan endann þegar við nálgumst heimsmeðaltalið eins og er að gerast núna,“ sagði Björgólfur.

„Þegar fjölgunin er svo mikil að við ráðum ekki við hlutina, pössum ekki upp á innviði og okkar perlur. Við vorum á leiðinni inn í sólarstrandarmassa sem við viljum alls ekki fara í. Við eigum veruleg verðmætari og erum dýrari en önnur lönd og eigum að vera það og vera óhrædd við það.“

Mjólkað áður en júgrin kæmu

Björgólfur sagði stjórnmálin hafa tekið of langan tíma í að móta stefnu fyrir ferðaþjónustuna sem ennþá vantaði. „Stjórnmálin hafa verið að eyða tíma í að velta þessu fyrir sér og ekki verið að hugsa um hvernig við byggjum upp atvinnuvegina, heldur er strax verið að hugsa um hvernig hægt sé að mjólka hann – meira segja áður en júgrin eru komin!“

Fram kom í erindi Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, að spáð væri umtalsvert hægari vexti í ferðaþjónustu og gerir Greining Íslandsbanka ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,4% í ár en að vöxturinn verði 1,5% á árinu 2019.

Loks fór Duane Layton lögfræðingur hjá Mayer Brown, sem hefur áratugalanga reynslu sem fulltrúi bandarískra stjórnvalda í alþjóðasamningum, yfir þær breytingar sem orðið hafa á þátttöku Bandaríkjanna í alþjóðaviðskiptum í forsetatíð Donald Trump.

Björn Berg Gunnarsson og Edda Hermannsdóttir stýrðu fundinum sem Birna Einarsdóttir bankastjóri opnaði eftir hádegisverð að hætti matreiðslumeistara VOX.