Landsréttur hefur ómerkt úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Halldóri Kristmannssyni, fyrrverandi starfsmanni Alvogen , verði gert að leggja fram gögn í málum sem Fiskveiðihlutafélagið Venus og Vogun reka gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni og gerði Héraðsdómi Reykjavíkur að taka málið fyrir á ný.

Umrædd gögn hafa þegar verið lögð fram í máli sem Alvogen höfðaði gegn Halldór vegna meintra brota á trúnaðarskyldu í starfi. Gögnin eiga samkvæmt Halldóri m.a. að sýna fram á hvernig Róbert Wessman hafi rekið ófrægingarherferð gegn Björgólfi Thor og fleiri óvildarmönnum um árabil. Þar á meðal hafi Róbert og samstarfsmenn hans fjármagnað og stýrt hópmálsókn hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi Thor sem rekin er samhliða málum Venusar og Vogunar gegn Björgólfi Thor. Hópmálsóknin og mál Venusar og Vogunar snúast um að Björgólf Thor greiði þeim bætur vegna falls Landsbankans árið 2008.

Róbert hefur hafnað ávirðingum Halldórs en meðal meintra trúnaðarbrota Halldórs í starfi er að hafa fundað með Björgólfi Thor.

Lögmenn Björgólfs fóru fram á að Halldór kæmi fyrir dóm og legði fram umrædd gögn sem Halldór hafnaði. Halldór bar því við að umrætt mál gegn Alvogen snerist um meint brot á trúnaðarskyldu auk þess sem umrædd mál Venus og Vogunar væru sér ótengd.

Upphaflega gert að afhenda „afrakstur fjölmiðlaherferðar“

Í upphaflegum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var Halldóri gert að leggja fram dómsskjal sem innheldur „aragrúa af blaðagreinum“ sem Halldór segir vera „afrakstur fjölmiðlaherferðar“ sinnar og samstarfsmanna hjá Alvogen gegn Björgólfi Thor og tengdum aðilum. Úrskurðurinn var hins vegar ómerktur fyrir Landsrétti og vísað aftur til Héraðsdóms þar sem dómari fór yfir lögboðinn fjögurra vikna hámarksfrest til að kveða upp úrskurð án þess að fram hafi komið að aðilar málsins féllust á töfina.

Nýttu gervimenn og dulnefni til að koma höggi á Björgólf

Halldór gaf út yfirlýsingu síðasta sumar þar sem m.a. kom fram að Alvogen hafi ráðið Þór Kristjánsson, fyrrverandi bankaráðsmann úr Landsbankanum og fyrrverandi stjórnarmann í Straumi árið 2010. Þór hafi verið falið að komast yfir trúnaðargögn úr Landsbankanum og Straumi til að nýta gegn Björgólfi. Gögnin sem tekist á var um fyrir dómi áttu að sögn Halldórs að renna stoðum undir þær fullyrðingar. Í þeim er samkvæmt úrskurðinum m.a. að finna fjölda tölvupósta úr netföngum Alvogen sem og úr netföngum gervimanna með dulnefni sem Halldór og Þór eiga að hafa stofnað til að koma upplýsingum tengdum Björgólfi og Landsbankanum á fjölmiðla, lögmenn og fleiri aðila. Í einu bréfanna biður Þór um að Halldór noti ekki netfang Alvogen samkvæmt samantekt lögmanns Halldórs.

Áralangar deilur Róberts og Björgólfs

Róbert Wessman og Björgólfur Thor hafa átt í áralöngum deilum sem eiga rætur sínar að rekja til þess þegar Róbert var forstjóri Actavis og Björgólfur Thor aðaleigandi fyrirtækisins. Deilurnar hafa verið reknar í réttarsölum og víðar í á annan áratug.

Björgólfur fjármagnaði til að mynda nýlega dómsmál þrotabús Mainsee Holding gegn Glitni sem snerist um að fá riftum greiðslum vegna skuldauppgjörs við Róbert Wessman . Þá lagði Novator , fjárfestingafélag Björgólfs Thors, milljarð króna til að fjármagna yfirtöku og rekstur á DV og tengdum miðlum á árunum 2017-2020. Sigurður G. Guðjónsson var í forsvari fyrir félagið Dalsdal sem keypti helstu fjölmiðla út úr Pressunni árið 2017, sem þá var undir stjórn Björns Inga Hrafnssonar. Það var gert þrátt fyrir andmæli Fjárfestingafélagsins Dalsins, sem þá var stærsti hluthafi Pressunnar, og í eigu Róberts og viðskiptafélaga hans, þar á meðal Halldórs Kristmannssonar. Pressan varð í kjölfarið gjaldþrota.