Sex framboð hafa borist til stjórnar N1 fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður þriðjudaginn 25. september næstkomandi. Í dag sitja fimm í stjórninni.

Frambjóðendur eru þau:

  • Björgólfur Jóhannsson, fæddur árið 1955, sem yrði nýr í stjórn ef hlyti kosningu. Hann er fyrrverandi forstjóri Icelandair.
  • Guðjón Karl Reynisson, fæddur 1963, en hann situr nú í stjórn Festi sem N1 hefur nýlega fengið samþykkt Samkeppniseftirlitsins að kaupa.
  • Helga Hlín Hákonardóttir, fædd 1972, sem einnig situr í stjórn Festi.
  • Kristín Guðmundsdóttir, fædd 1953, sem situr nú í stjórn N1.
  • Margrét Guðmundsdóttir, fædd 1954, en hún er sitjandi stjórnarformaður N1.
  • Þórður Már Jóhannesson, fæddur 1973, sem einnig yrði nýr í stjórn ef hlýtur kosningu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafa þeir Jón Sigurðsson og Þórarinn V. Þórarinsson báðir tilkynnt um að þeir muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Jafnframt hefur J ón Björnsson forstjóri Festa látið af störfum en hann mun áfram gegna stjórnarformennsku hjá Krónunni.

Hlutfall hvors kyns í stjórn félagsins verður að vera að lágmarki 40%. Framkomin framboð eru ekki í andstöðu við sátt N1 við Samkeppniseftirlitið samkvæmt þeim upplýsingum sem fylgja framboðunum að því er segir í tilkynningu frá N1.

Hluthafar hafa jafnframt rétt á að krefjast hlutfallskosningar eða margfeldiskosningar við stjórnarkjör í tvo sólarhringa frá því að stjórn kunngerir niðurstöður framboða til stjórnar, ef ekki er sjálfkjörið, samkvæmt samþykktum félagsins. Frestur til að krefjast margfeldiskosningar rennur því út kl. 12.00 á hádegi laugardaginn 22. september 2018 og geta hluthafar sem hafa að baki sér 10% krafist slíkrar kosningar.

Stjórn N1 leggur jafnframt til að Sigrún Ragna Ólafsdóttir, fædd 1963 og Tryggvi Pálsson, fæddur 1949, verði fulltrúar í tilnefningarnefnd N1 verði reglur um störf tilnefningarnefndar samþykktar á fundinum og hluthafafundur geri ekki athugasemdir við tilnefningu fulltrúanna.

Félagið hefur jafnframt tilkynnt um að nafni þess verði breytt úr N1 í Festi , en N1 verður framvegis rekstrareining innan Festar sem verður móðurfélagið.