Tilraunir til þess að fá bandarísk stjórnvöld til þess að koma bílarisunum þrem til aðstoðar hafa runnið út í sandinn í gær. Þó er ekki öll von úti þar sem að demókratar á Bandaríkjaþingi segja að þeir muni íhuga að samþykkja björgunaraðgerð á kostnað skattgreiðenda komi General Motors, Ford og Chrysler upp með sannfærandi áætlun um hvernig megi snúa rekstri fyrirtækjanna við fyrir 2. desember.

Staða bandarísku bifreiðaframleiðendanna er afar slæm um þessar mundir og hafa forráðamenn þeirra óskað eftir að stjórnvöld veiti þeim 25 milljarða dala aðstoð þannig að hægt sé að rétta hag þeirra við. Eins og fram kemur í frétt Breska ríkisútvarpsins, BBC, þá varð það ekki til þess að auka samúð með málstaði þeirra að forráðamenn fyrirtækjanna þriggja að þeir flugu til Washington-borgar á einkaþotum til þess að óska eftir ríkisaðstoðinni. En hverju sem því líður gera flestir sér ljóst að mikið er í húfi fyrir hinn almenna Bandaríkjamann. Um 240 þúsund manns starfa hjá General Motors, Ford og Chrysler og talið er að milljónir séu í störfum sem eru afleidd að bílaiðnaðinum.

Rætt hefur verið að hluti af björgunaráætlunum stjórnvalda vegna ástandsins á fjármálamörkuðum verði notaður til þess að styðja við bakið á bifreiðaframleiðendunum og á dögunum tilkynntu fjórir öldungadeildarþingmenn úr röðum demókrata og repúblikana um að þverpólitísk samstaða hefði nást þeirra á milli um málið. Ennfremur lýsti George Bush, forseti, því að hann væri hlynntur slíkum áformum.

En nú er ljóst er að stuðningurinn er ekki víðtækur enn sem komið  er á Bandaríkjaþingi. Málið virðist steyta á því að þingheimur hefur ekki trú á þeim tillögum sem hafa verið lagðar fram hvernig megi snúa rekstri fyrirtækjanna við. BBC hefur eftir Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar að stjórnvöld geti ekki lagt fram aðstoð sína nema að ljóst sé að aðgerðirnar komi til með skila árangri. Leiðtogi meirihluta demókrata í öldungadeildinni tekur í sama streng og segir forráðamenn bílarisanna verði að sannfæra þingheim um að björgunaraðgerð stjórnvalda yrði sú síðasta sem grípa muni þurfa til.

Takist forráðamönnum General Motors, Ford og Chrysler að sannfæra þingið um nauðsyn björgunarinnar 2. desember er talið að hægt verði keyra málið í gegn á nokkrum dögum.