Björgunaraðgerðirnar á Kýpur geta orðið fyrirmynd að sambærilegum aðgerðum í framtíðinni, að mati Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands. Hann fer jafnframt fyrir evruhópnum (Eurogroup).  Breska viðskiptablaðið Financial Times ræðir við Dijsselbloem í tengslum við björgunina og veitingu neyðarláns til Kýpur.

Í umfjölluninni er bent á að skattborgarar taki ekki á sig hrun helstu banka Kýpur heldur lánardrottnar bankanna og innstæðueigendur.

Dijsselbloem viðurkennir reyndar að ákveðinna taugaveiklunar gæti í röðum fjármálaráðherra nokkurra evruríkja enda hafi þeir áhyggjur af því hvort aðgerðir á borð við þær sem ráðist var í á Kýpur verði til þess að fjárfestar hætti kaupum á skuldabréfum evruríkja og banka á evrusvæðinu í kjölfarið.

Aðgerðirnar á Kýpur telur hann af hinum góða, ekki síst fyrir þær sakir að þær geti hugsanlega leitt til þess að fjármálastöðugleikasjóður evruríkjanna hætti að leggja fé til banka sem standa á brauðfótum.