Hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu allar í dag vegna ástandsins á Kýpur, en þar er allt sagt á suðupunkti vegna neyðarláns Evrópusambandsins til kýpverska ríkisins.

Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, gerir björgunaraðgerðirnar að umfjöllunarefni í pistli á vefsíðu BBC í dag. Þar segir hann að aðgerðirnar brjóti allar þær reglur sem menn töldu að giltu um björgunaraðgerðir sem þessa.

Reglurnar, sem Peston segir að sátt hafi ríkt um fram að þessu, hafi verið þær að verja ætti almenning og smærri innstæðueigendur að því marki sem hægt væri en að fagfjárfestar og skuldabréfaeigendur ættu að taka á sig fjárhagslegt högg. Það myndi leiða til þess að fagfjárfestar gæfu ríkisfjármálum meiri gaum en áður og að aðhald þeirra með viðkomandi ríki myndi aukast. Með því að verja venjulega innstæðueigendur væri hins vegar komið í veg fyrir að þeir gerðu áhlaup á banka.

Í tilviki Kýpur segir Peston að þessu hafi verið snúið á haus. Almennum innstæðueigendum er refsað með sérstökum skatti sem er 6,75% á innstæður undir 100.000 evrur og er skatturinn enn hærri á stærri en sem þessu nemur. Skuldabréfaeigendur þurfa svo ekki að taka á sig neina skerðingu sinna krafna.

Ástæðan er sú að kýpverskir bankar hafa á sér það orð að vera geymslustaður fyrir illa fengið rússneskt fé og hafa fréttir af þessu verið sérstaklega áberandi í Þýskalandi. Til að koma í veg fyrir að þýskir skattgreiðendur fengju það á tilfinninguna að verið væri að nota þýskt fé til að bjarga rússneskum glæpamönnum hafi þessi leið verið valin. Telur Peston að trúverðugleiki ESB hafi beðið hnekki með þessari lausn og að líkur á bankaáhlaupum í öðrum löndum hafi aukist. Þegar fréttir berast af því að annað land hafi leitað eftir fjárhagsaðstoð megi búast við því að innstæðueigendur geri áhlaup á þarlenda banka.