Fjárfestingarhópur sem Goldman Sachs fer fyrir greindi frá því í gær að hann myndi fjárfesta fyrir 3 milljarða Bandaríkjadala í Global Equity Opportunities sjóði bandaríska fjárfestingabankans eftir að hann tapaði verulegum fjárhæðum sökum þess óróa sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum undanfarnar vikur.

Talið er að sjóðurinn - en heildareignir hans námu um 3,6 milljörðum dala þegar markaðir lokuðu síðasta föstudag - hafi lækkað um næstum 30% það sem af er þessum mánuði. Í frétt Financial Times kemur fram að ásamt Goldman Sachs samanstandi hópurinn meðal annars af C.V. Starr, fjárfestingarhópi sem Maurice Greenberg leiðir; Perry Capital, vogunarsjóði sem er rekinn af fyrrum verðbréfamiðlara hjá Goldman Sachs; og Eli Broad sem hefur hagnast mikið á fasteigna- og tryggingarstarfsemi og er á meðal 50 ríkustu manna í Bandaríkjunum. Gert er ráð fyrir að Goldman Sachs útvegi tvo milljarða dala af upphæðinni, en afgangurinn kemur frá hinum ýmsu fjárfestum. Benjamin Wallace, sem stýrir um 750 milljóna dala sjóði hjá Grimes & Co., segir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að sú staðreynd - þ.e. að aðrir fjárfestar séu reiðubúnir til að setja inn fjármagn í sjóðinn með Goldman Sachs - virki mun trúverðugri heldur en ef bankinn hefði verið einn síns liðs.

Þessi aðgerð Goldman Sachs kemur á sama tíma og sá útbreiddi orðrómur hefur verið á kreiki að eignastýringarstarfsemi bankans hafi orðið fyrir víðtæku tapi, en hann starfrækir suma af stærstu vogunarsjóðum heimsins. Talsmaður Goldman Sachs viðurkenndi á fjölmiðlafundi sem haldinn var í gær, að tveir verðbréfasjóðir bankans - North American Opportunities og Global Alpha - hefðu orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á þeirri þróun sem einkennt hefur fjármálamarkaði síðustu vikur; að fjárfestar hafa verið að færa sig úr hlutabréfum yfir í áhættuminni fjárfestingar á borð við ríkisskuldabréf. Ekki stendur þó til að ráðast í sambærilegar björgunaraðgerðir fyrir þá sjóði líkt og Global Equity Opportunities, en samtals eru sjóðirnir þrír með meira en 10 milljarða dala í stýringu.

Goldman Sachs er ekki fyrsti bankinn á Wall Street sem grípur til slíkra aðgerða í því augnamiði að endurvekja traust fjárfesta á sjóðum sínum. Eftir að Bear Stearns tilkynnti í júní að tveir sjóðir bankans, sem höfðu fjárfest í skuldabréfum tengdum svokölluðum áhættusömum fasteignalánum (e. subprime mortage) myndu engum peningum skila, ákvað bankinn að láta um 1,3 milljarða dali af hendi rakna í sjóðina til að reyna bjarga þeim.

Goldman Sachs staðhæfði að þriggja milljarða dala innspýting fjárfestingarhópsins í verðbréfasjóðinn væri "tækifæri" fremur en "björgunaraðgerð"; eftir miklar lækkanir á verðbréfamörkuðum væru núna uppi vænlegar aðstæður fyrir Goldman Sachs og aðra fjárfesta. Í frétt Financial Times segir hins vegar að það virðist sem svo að aðgerðin sé einkum liður í því að reyna sannfæra fjárfesta um að losa ekki fjármagn sitt úr sjóðnum, en slíkt gæti orðið til þess að bankinn myndi neyðast til að selja eignir hans langt undir markaðsvirði.