Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt að veita 700 milljörðum dollara til stærstu björgunaraðgerðar á fjármálamarkaði fyrr og síðar. Frumvarpið um björgunina var samþykkt með 263 gegn 171 atkvæði, en fyrri útgáfa frumvarpsins hafði áður verið hafnað af fulltrúadeildinni. Stuðningur við aðgerðina var mun meiri meðal Demókrata, en meirihluti Repúblikana greiddi atkvæða gegn frumvarpinu. CNN segir frá þessu í dag.

Frumvarpið gerir fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna kleift að kaupa upp eitraða skuldabréfavafninga af illa settum fjármálafyrirtækjum. Þessi aðferð hefur legið undir miklu ámæli, meðal annars vegna þess að menn telja nú að ríkið muni eiga frumkvæði í verðlagningu eigna, sem enginn hefur treyst sér til að verðmeta fyllilega sökum sölutregðu á síðustu vikum og mánuðum. Einnig hefur verið gagnrýnt að rangar ákvarðanir fjárfesta séu verðlaunaðar, fyrir utan það að peningarnir sem verða notaðir í aðgerðina eru skattfé.

Í dag komu nýjar tölur um atvinnustig í Bandaríkjunum. Þær sýndu mun verri stöðu en væntingar stóðu til, og sú staðreynd er talin hafa ýtt undir samþykktina.