Björgunarmöguleikar Landhelgisgæslunnar gætu komist í uppnám en Gæslan sagði í gær upp þremur þyrluflugmönnum. Stofnuninni er gert skylt að spara fjármang og því neyðst til að segja upp þyrluflugmönnum.

Þetta setur töluverð takmörk á björgunarmöguleika og skerta þjónustu við sjófarendur en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður aðeins hægt að halda úti einni þyrluvakt átta mánuði ársins verður, þ.e. eftir að uppsagnafrestur flugmannanna rennur út, en ekki tveimur eins og verið hefur frá því að bandríkjaher fór af landi brott með sínar þyrlur.

Frá því að bandaríkjaher fór af landi brott hefur Landhelgisgæslan haldið úti tvöfaldri þyrluvakt, sem þýðir að ein áhöfn er á svokallaðri aðalvakt en önnur til taks ef á þarf að halda. Báðar vaktirnar voru þó jafnvígar, þ.e. að ef önnur vaktin var í verkefni þá var hin vaktin kölluð út í önnur verkefni ef á þyrfti að halda.

Aðeins farið 20 mílur út frá ströndinni

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þýðir þetta að ekki verður hægt að senda stærri þyrlur Gæslunnar lengra en 20 sjómílur út frá ströndu ef hættuástand skapast á hafi úti.

Það er flugstjóri þyrluáhafnar sem tekur ákvörðun um hvort haldið skuli í björgunarleiðangur eða ekki. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins leggur þyrluáhöfn ekki í ferð út fyrir 20 mílna radíus án þess að hafa back-up, eins og það er kallað í björgunargeiranum, eða möguleika á eigin björgun.

Á því kann þó að vera undantekning ef skip er innan 1 klst. siglingu frá „slysstað“ á hafi úti sem þá gæti komið þyrluáhöfn til bjargar, t.a.m. ef þyrla þarf að nauðlenda á sjó. Hingað til hefur Gæslan treyst á aðra þyrluvakt til að koma hinni til bjargar ef á þarf að halda. Hér áður var treyst á bandríkjaher og síðar á aðra þyrluáhöfn Gæslunnar.

Vantar um 3 - 400 milljónir króna

Flugdeild Gæslunnar kostar um 1,6 milljarð á ári og er um 60% alls rekstrarkostnaðar Gæslunnar. Landhelgisgæslan hefur nú þrjár þyrlur til umráða. Gæslan á sjálf eina þyrlu, TF Líf af gerðinni Super Puma. Þá leigir Gæslan tvær þyrlur, TF Gná sem einnig er af gerðinni Super Puma og TF Eir sem er af gerðinni Aerospatiale Dauphin.

Nú þegar hefur einni leiguvél af gerðinni Supar Puma verið skilað en þegar bandaríkjaher fór af landi brott var miðað við að fjórar þyrlur yrðu í umsjá Gæslunnar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vantar á bilinu 3 - 400 milljónir króna til rekstursins til að draga uppsagnirnar til baka, þar af er um . Þá er leigukostnaður vegna TF Gná að sliga Gæsluna en leigukostnaðurinn er greiddur í evrum.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins kostar leiga og viðhald á TF Gná um 400 milljónir króna á ári en viðhaldskostnaður TF Líf er á bilinu 70-100 milljónir króna á ári.