Kýpurforseti, Nicos Anastasiades, segist munu óska eftir frekari aðstoð frá Evrópusambandinu, en í gær kom í ljós að Kýpur þarf á mun stærri björgunarpakka að halda en fyrst var talið. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því að kostnaður við að bjarga Kýpur og kýpverska bankakerfinu fyrir horn yrði um 17,5 milljarðar evra, andvirði um 2.700 milljarða króna. Í frétt BBC segir að kostnaðurinn sé nú kominn upp í 23 milljarða.

Í fréttinni segir að Kýpur muni ekki óska eftir frekari fjárhagsaðstoð frá ESB, en sambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa samþykkt að veita Kýpur 10 milljarða evra aðstoð. Kýpur mun vilja afla þessara 5,5 milljarða sem bæst hafa við á eigin spýtur, en stjórnvöld þar vilja að ESB slaki á þeim skilyrðum sem sambandið setti fyrir sínum hluta björgunarpakkans. Einn af þeim kostum sem til skoðunar er sala á gullforða Kýpur.