Hlutur Íslands í evrópska stöðugleikakerfinu (ESM) næmi 0,1% af heildinni eða sem nemur 80 milljónum evra, jafnvirði 13 milljarða króna. Framlagið yrði skráð sem eign ríkissjóðs en ekki sem kostnaður í fjárlögum. Meginhluti framlagsins yrði hins vegar í formi ábyrgðar á lánveitingum sem evruríkin ábyrgjast í hlutfalli við eignarhluti þeirra.

Þetta kemur fram í svari Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Hún spurði ráðherra að því hver hlutur Íslands hefði verið í krónum talið í 1.000 milljarða evra björgunarsjóði Evrópusambandsins ef Ísland væri orðið aðili að sambandinu.

Í svari Össurar segir m.a. að aðeins evruríkin greiði í sjóðinn en ekki aðildarríki Evrópusambandsins. Hlutur evruríkjanna í björgunarsjóðnum eru reiknaður út frá mannfjölda og landsframleiðslu evruríkjanna á sama hátt og eignarhlutur þeirra í Evrópska seðlabankanum.

Eins og greint var frá í morgun hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið fram yfir þingkosningar.

Í svarinu segir m.a. orðrétt:

„Ef Íslendingar samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga í Evrópusambandið og efnahagslegur stöðugleiki næst til langs tíma með þátttöku í gengissamstarfi Evrópu, ERM II, þannig að evran verði tekin upp sem gjaldmiðill má gera ráð fyrir að hlutur Íslands í ESM yrði um 0,1% af heild. Þar sem krónan hefði á þeim tíma verið aflögð hér á landi og evra tekin upp í staðinn, yrðu greiðslur Íslands í sjóðinn í evrum en ekki íslenskum krónum. Inngreitt eiginfjárframlag Íslands yrði þá 80 millj. evra, eða ríflega 13 milljarðar kr. á núverandi gengi.“