„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ekki björgunaraðgerðir enda eru íslensku viðskiptabankarnir reknir með prýði,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið nú undir kvöldmat þegar blaðið leitaði viðbragða vegna ummæla hans í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi .

Björgvin segir að hafa skuli í huga smáa sparisjóði og minni fjármálafyrirtæki þegar hugsað er til núverandi ástands á fjármálamörkuðum.

„Þessi félög eru hugsanlega viðkvæmari fyrir langvarandi lausafjárkrísu,“ segir Björgvin og minnir á að vandamálið sé alþjóðlegt en ekki bara hér á landi.

Hann segir að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé verið að auka lausafé á markaði, styrkja stoðir fjármálafyrirtækja og koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn.

„Það er verið að koma á jákvæðu samstarfi milli ríkisins og fjármálastofnana til að létta róðurinn um stundarsakir,“ segir Björgvin. Hann segir banka og fjármálafyrirtæki hafa kallað eftir aðgerðum hins opinbera og hann telur þær aðgerðir sem kynntar voru fyrir helgi mjög jákvæðar.

Varðandi ummæli Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu ekki vænleg tíðindi fyrir íslenskan fjármálamarkað vill Björgvin ekki tjá sig efnislega. Hann segist hins vegar skilja vonbrigði þeirra sem ekki telja rétt að ríkið auki umsvif sín á íbúðarlánamarkaði.