*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Fólk 28. mars 2014 15:45

Björgvin G. Sigurðsson í stjórn RARIK

Þrír fyrrverandi þingmenn eru í stjórn RARIK sem kjörin var í dag.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fyrrverandi þingmenn eru áberandi í stjórn RARIK ohf. sem kjörin var í dag. Á meðal þeirra sem kjörin voru eru Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, Birkir J. Jónsson, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir, fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Auk þeirra voru þau Guðmundur Hörður Guðmundsson og Hulda Aðalbjarnardóttir kjörin. 

Úr stjórn gengu Árni Steinar Jóhannsson, fyrrverandi alþingismaður, Hilmar Gunnlaugsson, Ingibjörg Sigmundsdóttir og Valdimar Guðmannsson.

Á aðalfundinum kom fram að verðjöfnun ríkisins til raforkudreifingar í dreifbýli (sveitum og minni byggðakjörnum) verður aukin nú um mánaðarmótin. Hjá meðalheimili með rafhitun í dreifbýli lækkar flutnings- og dreifikostnaður rafmagns um 15 - 20%  og heildarkostnaður rafmagns um 8 – 9 %. 

Þá kom fram helmingur af 8.700 km dreifikerfi RARIK er nú kominn í jarðstrengi og að á árinu 2013 voru lagðir tæpir 230 km af nýjum jarðstrengjum, mest í dreifbýli.