Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir, sem voru fulltrúar Samfylkingarinnar í þingmannanefnd um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, telja ekki grundvöll til að ákæra Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra. Telja þau að ráðherrann hafi verið útilokaður frá ýmsum fundum og ákvörðunum sem teknar voru í aðdraganda hrunsins.

Hins vegar taka þau undir rökstuðning Atla Gíslasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Eyglóar Harðardóttur og Birgittu Jónsdóttur að því er varðar málshöfðun gegn Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna M. Mathiesen.

Oddvitar stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, fóru inn á valdsvið annarra ráðherra, stýrðu miðlun upplýsinga og höfðu verkstjórn og verkaskiptingu með höndum að mati Magnúsar Orra og Oddnýjar. „Þannig voru samskipti um efnahagsmál og málefni íslensku bankanna takmörkuð við hóp þriggja ráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra," segir í tillögu þeirra til þingsályktunar.

Ekki samræmi milli lögboðins og raunverulegs valds

„Af þessari skipan leiddi að ekki var samræmi á milli lögboðins valds og raunverulegs valds ráðherra. Þessu til stuðnings skal bent á að viðskiptaráðherra, sem fór með málefni bankanna, tók ekki þátt í fundi með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra 7. febrúar 2008 þar sem formaður bankastjórnar bankans dró upp verulega dökka mynd af stöðu bankanna.

Hann fékk ekki heldur upplýsingar um útstreymi af Icesave-reikningum í Bretlandi í lok mars sama ár. Þá hafði hann ekki vitneskju um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl þar sem settar voru fram tillögur um aðgerðir til að minnka bankakerfið.

Viðskiptaráðherra undirritaði ekki yfirlýsingu sem fylgdi gjaldeyrisskiptasamningum við norræna seðlabanka 15. maí um minnkun bankakerfisins og aðgerðir í efnahagsmálum og fékk hvorki upplýsingar um tilurð hennar né forsendur.

Þessu til viðbótar hafði viðskiptaráðherra ekki vitund um komu erlends sérfræðings, Andrews Gracie, á vegum Seðlabanka Íslands en hann taldi inngrip stjórnvalda nauðsynlegt til draga úr stærð bankakerfisins. Þessar og aðrar upplýsingar frá Gracie voru kynntar samráðshópi um fjármálastöðugleika og forsætisráðherra með beinum hætti án þess að þær bærust viðskiptaráðherra. "

Svo segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni:

„Þá var viðskiptaráðherra ekki viðstaddur sex fundi um efnahagsmál og málefni bankanna sem nefndir eru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sátu ásamt fulltrúum Seðlabanka Íslands. Loks má þess geta að viðskiptaráðherra vissi hvorki af samtali formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands við bankastjóra Seðlabanka Evrópu né Seðlabanka Bretlands þar sem fram kom að erlendir bankastjórar höfðu áhyggjur af alvarlegri stöðu íslenska bankakerfisins."

Útilokunin náði hámarki

„Útilokun viðskiptaráðherrans náði hámarki þegar utanríkisráðherra ákvað að honum yrðu ekki kynntar aðgerðir ríkisvaldsins vegna lánabeiðni Glitnis banka sunnudaginn 28. september 2008. Áhrifaleysi viðskiptaráðherra kristallast í því að 12. ágúst lagði hann fram minnisblað fyrir ríkisstjórn sem innihélt tillögur um að efla stöðugleika fjármálakerfisins. Tillaga þessi var ekki afgreidd í ríkisstjórn. Hið sama hafði verið uppi á teningnum þegar viðskiptaráðherra kynnti oddvitum stjórnarflokkanna drög að frumvarpi til breytinga á lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta snemma árs 2008.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður ekki talið að fyrrverandi viðskiptaráðherra hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu sem ráðherra," segir í greinargerð Magnúsar Orra Schram og Oddnýjar Harðardóttur.