Laun bankastjóra Nýja Kaupþings komu Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra á óvart. Ráðherrann beinir því til bankastjórnanna að laun bankastjóranna verði endurmetin svo þau verði sambærileg launum annarra ríkisforstjóra og forstöðumanna.

Kastljósið hefur beinst að launum bankastjóra hinna nýju ríkisbanka að undanförnu og upplýsti Finnur Sveinbjörnsson, þegar hann tók við bankastjórastólnum í Nýja Kaupþingi að mánaðarlaun hans væru tæplega tvær milljónir króna.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis og Elín Sigfúsdóttir, bankastjóra Nýja Landsbankans, hafa ekki upplýst um sín laun.

Of há laun hjá Kaupþingi

Sjálfur sagði Björgvin G. Sigurðsson í þingumræðum nýlega að tími ofurlauna væri liðinn.

Þegar Viðskiptablaðið spurði hann út í þetta í dag svaraði hann: „Það kom mér á óvart þegar ég heyrði í fréttum hver laun hans [Finns Sveinbjörnssonar] væru."

Björgvin tekur fram að hann viti ekki laun hinna bankastjóranna enda séu þau ákveðin af viðkomandi bankastjórnum og ekki borin undir ráðherra.

„Fréttir af launum bankastjóra Kaupþings benda til að þau séu of há. Mér finnst mikilvægt að þau séu endurmetin," segir hann. Björgvin bætir því við að hann átti sig á því að auðvitað sé margt gert í flýti. Það breyti því ekki að sanngjarnt sé að miða laun bankastjóranna við laun annarra ríkisforstjóra og forstöðumanna. „Ég beini því til bankastjórnanna að þær endurmeti þetta og samræmi við sambærileg laun," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.