„Þetta er fullkomlega úr lausu lofti gripið,“ segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra um þau ummæli Roberts Wade, prófessors við London School of Economics, að sterkur orðrómur sé um það á Íslandi Samfylkingin muni slíta samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn og knýja fram kosningar.

Björgvin segir að samstarf stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi aldrei verið betra. Ástandið í efnahagsmálum hafi þjappað flokkunum enn frekar saman.

Umrædd ummæli Wades birtust í Financial Times í gær og var greint frá þeim hér . Björgvin segist hafa verið mjög undrandi þegar hann las greinina. Fullyrðingar prófessorsins eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Þær byggi á mikilli yfirborðsþekkingu á samstarfi stjórnarflokkanna.

„Samstarf flokkanna hefur á þeim fjórtán mánuðum [sem liðnir eru frá kosningum] aldrei verið betra en nú. Einn megintilgangurinn með samstarfi þessara tveggja ólíku flokka var að koma þjóðinni í gegnum tímabil samdráttar og aðlögunar í efnahagsmálum og aftur á rétta braut til viðvarandi stöðugleika. Við vissum alltaf að það yrði stærsta verkefnið þó menn gerðu ekki ráð fyrir að þetta gerðist allt svona hratt og hressilega,“ áréttar Björgvin.

Hann ítrekar að ástandið í efnahagsmálum hafi þjappað flokkunum enn frekar saman. „Samstarfið er gott og heiðarlegt og betra en nokkru sinni fyrr á þessum fjórtán mánuðum.“