Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra tilkynnti rétt í þessu á blaðamannafundi að hann hefði beðist lausnar sem viðskiptaráðherra. Jafnframt sagði hann að stjórn fjármálaeftirlitsins og forstöðumaður þess myndu láta af störfum.

Björgvin kvaðst hafa sent Geir H. Haarde forsætisráðherra formlegt bréf um afsögn sína. Með þessu sagðist viðskiptaráðherra vilja axla sína pólitísku ábyrgð á efnahaghruninu og leggja sitt af mörkum til að skapa traust á stofnunum samfélagsins meðal þjóðarinnar. Aðspurður kvaðst Björgin áfram ætla að sinna starfi sínum sem þingmaður.