„Viðskiptabankarnir eiga fullt erindi inn á íbúðalánamarkaðin og aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru fyrir helgi eru enginn áfellisdómur yfir bönkunum,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segist vera ósammála þeim sem gefið hafi til kynna að bankarnir hafi komið of geyst inn á markaðinn með húsnæðislán.

„Það er ekki við þeirra innkomu að sakast. Ég tel að bankarnir eigi eftir að eiga góða daga á þessum markaði í komandi framtíð en það er mikilvægt að hafa í huga að það vandamál sem nú ríkir á fjármálamörkuðum kemur erlendis frá,“ segir Björgvin.

Hann segir aðgang að ódýru lausafé vera takmarkaðan en viðskiptabankarnir hafi sýnt á síðustu árum að þeir geti sinnt þessum markaði með góðum hætti.

„Það má heldur ekki gleyma því að bankarnir gerðu fólki kleift að losa um fé með því að veðsetja hús sín sem það var búið að eignast mikið í. Í framhaldi af því gat það fólk notað pening sinn í annað og um það er ekkert nema gott að segja,“ segir Björgvin.