*

laugardagur, 24. júlí 2021
Fólk 25. apríl 2018 08:52

Björgvin Ingi nýr til Deloitte

Nýr sviðstjóri Deloitte Consulting, Björgvin Ingi Ólafsson, hefur starfað hjá Íslandsbanka og McKinsey og lærði hjá Kellogg.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Björgvin Ingi Ólafsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri Deloitte Consulting. Samhliða verður Björgvin einn eigenda Deloitte. Björgvin kemur til Deloitte frá Íslandsbanka þar sem hann var framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar.

Áður starfaði Björgvin Ingi hjá Meniga og ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company. Björgvin er með MBA gráðu frá Kellogg School of Management og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

„Það er okkur mikil ánægja að fá Björgvin Inga í hópinn til þess að leiða uppbyggingu Deloitte Consulting,“ segir Sigurður Páll  Hauksson, forstjóri Deloitte. Deloitte Consulting á Íslandi er hluti af ráðgjafararmi Deloitte í Evrópu með um 50 starfsmenn á Íslandi, yfir 1.100 á Norðurlöndunum og um 36.000 í Evrópu. Deloitte stefnir á frekari eflingu starfseminnar á Íslandi.

Áherslur Deloitte Consulting eru á ráðgjöf í stefnumótun, rekstri og upplýsingatækni og byggir á sterku baklandi Deloitte. Deloitte Consulting er eitt af sex sviðum Deloitte, hin eru: Endurskoðun, áhætturáðgjöf, fjármálaráðgjöf, skatta- og lögfræðisvið og viðskiptalausnir.

„Aukið umrót, flækjustig rekstrar og tæknibreytingar færa fyrirtækjum bæði mikil tækifæri og stórar áskoranir,“ Björgvin Ingi Ólafsson, sviðsstjóri Deloitte Consulting.

„Deloitte Consulting er vel í stakk búið til að styðja íslensk fyrirtæki við að nýta tækifærin og glíma við áskoranirnar. Ég hlakka til að leiða öfluga ráðgjafareiningu og er sannfærður um að sterkt bakland Deloitte Consulting á heimsvísu styður vel við frekari uppbyggingu öflugrar einingar á Íslandi.“

Um Deloitte

Deloitte er stærsta fyrirtæki heims á sviði endurskoðunar og ráðgjafar. Um 260.000 manns starfa hjá fyrirtækinu í yfir 150 löndum um allan heim. Félagið er leiðandi á sínu sviði og þjónar mörgum af stærstu fyrirtækjum heims, auk þess að þjóna stórum og smáum atvinnurekstri í þeim löndum sem það er með starfsemi í.