Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra,  og Jónas Fr. Jónsson, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), afréðu að nýju bankarnir þrír keyptu út verðlaus skuldabréf úr peningamarkaðssjóðum föllnu bankanna þriggja þrátt fyrir að engin heimild væri í neyðarlögunum fyrir aðkomu ríkisins að uppgjöri þeirra. Starfsmönnum FME þóttu afskipti ráðuneytisins af uppkaupum bréfa úr sjóðunum "mjög óeðlileg".

Að endingu keyptu nýju bankarnir þrír, þá í eigu ríkisins, skuldabréf úr sjóðum föllnu bankanna þriggja, og hlutdeildarskirteini í þeim, fyrir um 130 milljarða króna, að mestu úr sjóðum Glitnis og Landsbanka. Í staðinn fengu sjóðsfélagar mun hærri endurheimtur en þeir hefðu átt að fá, á kostnað nýju bankanna og að einhverju leyti skattgreiðenda.

Fyrst átti ríkið að kaupa, svo gömlu bankarnir en loks nýju bankarnir

Björgvin lýsti því yfir á blaðamannafundi 8. október 2008 að leitað yrði leiða til að tryggja peningamarkaðssjóði. Hugmyndin á þeim tíma var að ríkið keypti skuldabréf banka út úr sjóðunum til að takmarka tjón þeirra. Að auki átti ríkið að kaupa "illseljanleg bréf" sem flest voru útgefin af félögum tengdum bönkunum sjálfum. Þau eru nánast undantekningalaust gjaldþrota eða hafa gengið í gegnum nauðasamninga í dag.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður Björgvins, kallaði til Jón Steinsson og hófu þeir samskipti við starfsmenn FME og ýmis ráðuneyti um hvernig ætti að slíta sjóðunum. Jón Þór lagði mikla áherslu á að við slit sjóðanna yrði sama hlutfall greitt úr öllum sjóðum og vildi þá að þrotabú föllnu bankanna keyptu bréfin úr þeim, ekki ríkið.

Tölvupóstur frá aðstoðarmanni til starfsmanna FME

Skilanefndir þeirra tóku það ekki í mál enda myndi slíkt skerða endurheimt kröfuhafa þeirra. Í skýrslunni segir síðan af tölvubréfi Jóns Þórs til starfsmanns FME 15. október, en af því megi  "ráða að ríkið kæmi ekki frekar að málinu með fjárstuðningi heldur hefði Björgvin G. Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson afráðið að nýju bankarnir keyptu skuldabréf viðskiptabankanna þriggja úr sjóðunum." Jón Þór vildi ekki kannast við þessi samskipti í skýrslutökum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .