Björgvin Skúli Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Í tilkynningu segir að hlutverk sviðsins sé að hámarka tekjur Landsvirkjunar til langs tíma. Í því felst þróun, kynning og sala á orkuvörum og þjónustu, samskipti við núverandi og væntanlega viðskiptavini vegna samninga og reksturs þeirra auk greiningu viðskiptatækifæra. Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs heyrir beint undir forstjóra Landsvirkjunar.

Björgvin hefur síðastliðin þrjú ár starfað sem framkvæmdastjóri hjá Deutsche Bank í London. Þar áður starfaði hann hjá Lehman Brothers um þriggja ára skeið og síðar við slitastjórn sama fyrirtækis. Björgvin var enn fremur einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Mentis. Björgvin varði doktorsritgerð sína frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum á sviði stjórnunar og verkfræði árið 2005. Áður lauk hann meistaraprófi í hagfræði og fjármálum frá sama skóla og C.S. gráðu í véla-og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Björgvin er kvæntur Kristínu Friðgeirsdóttur lektor við London Business School og eiga þau þrjú börn.